top of page

SEARCH BY TAGS: 

Hvers vegna tökum við slæmar ákvarðanir?

Ég ber víða niður í leit að efni sem getur komið mér á sporið í verkefninu mínu. Eitt af því sem ég er að skoða eru hugsanaskekkjur (e. cognitive biases). Bandaríski sálfræðingnum Daniel Gilbert sem starfar við Harvard hefur rannsakað þær og ég hafði heyrt af bók hans „Stumbling on happiness". Ég vissi hins vegar ekki að hún er til í íslenskri þýðingu Bergsteins Sigurðssonar og kallast "Hnotið um hamingjuna" (Reykjavík 2007) en hef nú komið höndum yfir hana. Í leit að upplýsingum um Gilbert rakst ég á fáeina fyrirlestra á vefnum Ted.com. Einn þeirra kallast „Why we make bad decisions". Í honum fjallar Gilbert um jöfnu eða reglu Daniels Bernoullis (svissneskur stærðfræðingur og eðlisfræðingur, 1700 - 1782) sem segir til um svonefnd vænt verðmæti. Hversu verðmæt ákvörðun geti verið okkur. Gilbert segir (í hálfkæringi) að reglan sé gjöf sem hefði getað breytt heiminum en hafi þó varla gagnast nokkuð. Reglan er svona í einfaldaðri mynd:

Vænt verðmæti = Líkur á ávinningi x verðmæti ávinningsins

Ef við gætum lagt mat á þessar tvær breytur þá gætum við ævinlega reiknað út hvað skynsamlegast væri fyrir okkur að gera - hvað gæða við getum vænst og þar með hvaða ákörðun væri best að taka. Vandamálið er að við erum hvorki góð í að meta líkur á ávinningi né að meta mögulegt verðmæti hans.

Gilbert nefnir þó einfalt dæmi þar sem jafnan myndi væntanlega reynast okkur gagnleg. Segjum að mér sé boðið í einfalt fjárhættuspil sem ég borga 400 kr. fyrir að taka þátt í. Peningi er kastað og komi landvættirnar upp þá vinn ég 1.000 kr. Ég nota jöfnuna og þá er útkoman þessi: Líkurnar eru 1/2 x 1.000 kr. = 500 kr. sem er meira en ég greiði fyrir að taka þátt í leiknum. Ég tek þátt í leiknum á þessum forsendum - enda veðmál með hagstæðum likum.

Vandinn er að fæstar kringumstæður eru þetta einfaldar og þó við eigum að kallast skynsemisverur þá tökum við iðulega óskynsamlegar ákvarðanir. Hann nefnir dæmi um spurningu þar sem við erum beðin að meta likur: Hvort er líklegra að við mætum manneskju með hund í bandi eða manneskju með svín í bandi í miðborg Oxford um miðjan dag? Svarið er augljóst: Hund í bandi auðvitað! En hvernig vitum við það? Jú vegna þess að í huga okkar er myndin af hundi í bandi sú augljósa - minni okkar er fullt af þeim. Í sjálfu sér ekki slæm þumalputtaregla að fylgja. Nema þegar hún virkar ekki - sem er oftar. Gilbert nefnir annað dæmi: Hvort er líklegra að þú finnir enskt orð sem hefur r sem þriðja staf eða r sem fyrsta staf. Ef við notum sömu aðferð og áðan þá svara flestir: Fyrsta staf! Það er jú auðveldara að muna eftir slíkum orðum. Staðreyndin er sú að mun fleiri ensk orð hafa r sem þriðja staf.

Fyrirlestur Gilberts er nánast samfellt safn af dæmum um þetta tvennt, hversu lök við erum í að meta líkur og verðmæti. Við gerum villur í hvoru tveggja. Vegna fyrri villunnar eyða Bandaríkjamenn meiri fjármunum í fjárhættuspil en nokkra aðra afþreyingu. Og lottóið ef prýðilegt dæmi. Það er aldrei talað við þá sem tapa í lottói, við heyrum bara sögur af þeim sem vinna. Þess vegna höfum við hærri hugmyndir um líkurnar á vinningi en eru í raun og veru. Ef fjölmiðlar á sunnudegi væru fullir af viðtölum við fólk sem lýsti því yfir að því miður hafi það tapað í lottói laugardagskvöldsins er ósennilegt að við tækjum nokkurn tíma þátt!

Ef við víkjum aðeins af villunum sem við gerum þegar við reynum að meta verðmæti þá eru dæmin mýmörg. Algengasta hugsanaskekkjan er fólgin í því að bera verðmæti saman við fortíðina. Við spyrjum hvað hef ég venjulega borgað fyrir tiltekinn hlut eða vöru en ekki hvað annað gæti ég gert við peningana. Dæmi sem við þekkjum öll: Tilboðsverð á vöru sem kostaði áður x en kostar nú 20% minna - við föllum fyrir þessu aftur og aftur.

Annað einfalt dæmi: Þú ert á leið í leikhús með leikhúsmiða sem kostaði 5.000 kr. og 5.000 kr. seðil í veskinu þínu. Þegar þú kemur á staðinn kemstu að því að þú hefur týnt miðanum þínum. Spurningin er ertu til í að nota 5.000 kr. seðilinn sem er eftir í veskinu til að kaupa nýjan miða? Flestir segja nei - þeir vilja ekki greiða tvisvar sinnum fyrir sömu upplifunina.

Breytum sögunni aðeins: Þú ert á leið í leikhúsið með tvo 5.000 kr. seðla í veskinu þínu. Þegar þú kemur á staðinn kemstu að því að þú hefur týnt öðrum seðlinum. Spurningin er, ertu til í að nota 5.000 kr. seðilinn sem eftir er til að kaupa fyrir hann leikhúsmiða. Flestir segja já. Það að ég týndi peningnum kemur leikhúsferðinni ekkert við. Engu að síður er tapið hið sama í báðum tilfellum. Það að við metum tapið í fyrra dæminu stærra er hugsanavilla: Við leggjum mat á verðmæti með hliðsjón af fortíðinni.

Gilbert kemur líka eldsnöggt inn á villur sem við gerum þegar við byggjum mat á verðmæti á því mögulega - framtíðinni. Eitt af hans dæmum er svona: Þú vilt kaupa hljómflutningstæki í bílinn þinn. Í nágrenninu geturðu fengið tæki fyrir segjum 60 þús. en ef þú ert tilbúinn að aka alveg í hinn enda borgarinnar sem þú býrð í, þá geturðu fengið samskonar tæki fyrir helmingi lægra verð eða 30 þús. Langflestir myndu leggja þetta ferðalag á sig.

En hvað þú ert að kaupa bíl? Í nágrenninu geturðu fengið bílinn sem þú ert að leita að fyrir 2.420 þús. en ef þú ert tilbúinn að aka í gegnum borgina þá geturðu fengið samskonar bíl fyrir 2.390 þús. Í þessu tilfelli segja flestir að 30 þús. skipti ekki öllu máli - af því að viðskiptin eru hvort sem er svo umfangsmikil. Samt er ágóðinn nákvæmlega hinn sami. Þú getur gert nákvæmlega sömu hluti fyrir 30 þúsundin sem þú sparaðir á hljómflutningtækjakaupnunum og bílakaupunum. Þrjátíuþúsundkallinn spyr ekki um hvar hann var sparaður þegar að því kemur að verja honum í eitthvað!

Ég rek efni fyrirlestursins ekki frekar hér - tengill á hann fylgir hér með. En efnið er ákaflega áhugavert og samhengið sem ég hef í huga er þetta: Ef við erum svona slök að leggja mat á líkur og verðmæti og tökum óskynsamlegar ákvarðanir þess vegna, hversu miklum skaða getur það þá valdið t.d. í rekstri fyrirtækja eða þegar teknar eru samfélagslegar og pólitískar ákvarðanir? Hvað spiluðu hugsanaskekkjur mikið inn í þá staðreynd að íslenska bankakerfið hrundi?

Gilbert endar sinn fyrirlesturinn á eftirfarandi pælingu: Ef mannkynið verður ekki hér eftir 10 þúsund ár þá er það líklega vegna þess að við vanmátum líkurnar á erfiðleikum okkar í framtíðinni og ofmátum verðmætin sem fólgin eru í vellíðan okkar í nútíðinni.

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page