top of page

SEARCH BY TAGS: 

Aðkomumenn á Akureyri annars flokks?

Í Akureyri - Vikublaði þann 11. september síðan birtist skemmtilegt viðtal við Þórodd Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri þar sem hann gerir að mínu mati út af við þá hugmynd að gagn megi hafa af greinarmuninum á innfæddum og aðfluttum Akureyringum.

Í viðtalinu kemur m.a. fram að í könnun sem gerð var á vegum Háskólans á Akureyri árið 2011 treystu 80% íbúa Akureyrar til að kalla sig Akureyringa. Þar kemur líka fram að árið 2008 voru 61% íbúa bæjarins fæddir á Akureyri. Ef tekið er mark á því hlutfalli eru „Akureyringar" aðeins um 11 þúsund af þeim ríflega 18 þúsund sem eru það skv. þjóðskrá. Þeir sem hafa hvergi annars staðar búið eru enn færri eða um 5 þúsund talsins.

Hér ætti a.m.k. þrennt að blasa við:

a) Að innfæddi Akureyringurinn Freymóður, getur ekki með nokkrum vitrænum eða skilvirkum hætti samsamað sig hinum 10.999 innfæddu Akureyringunum.

b) Ef Freymóður þessi getur ekki með skýrum hætti samsamað sig þessum 10.999 þá getur hann heldur ekki með vitrænum eða skilvirkum hætti gert greinarmun á sér og hinum 7.000.

c) Ekkert sammæli er um að nauðsynlegt sé að vera fæddur á Akureyri til að teljast Akureyringur.

Það er m.ö.o. útilokað að ætla sér að lifa lífinu, taka ákvarðanir, forgangsraða, ráða til starfa, eiga viðskipti við eða ekki viðskipti við o.s.frv. með hliðsjón af því hver er innfæddur og hver ekki.

Auðvitað hef ég heyrt dæmi þess að fólk reyni að láta þennan greinarmun skipta máli í höfðinu á sér og færi það jafnvel í tal. Ég hef hins vegar aldrei skilið hvaða mismunandi eiginleika eða verðskuldun hann á að endurspegla. Enda er greinarmunurinn á á innfæddum Akureyringum og aðfluttum merkingarlaus nema í ættfræðileikfimi.

Þeir sem ímynda sér að eitthvað sé byggjandi á þessum greinarmun eru líklega haldnir hugsanaskekkjunni sem kennd er við hóphugsun. Birtist m.a. í að stolt yfir því að tilheyra ákveðnum hópi kemur í veg fyrir skynsamlega íhugun. Meinið í þessu tilfelli er hins vegar afmörkun hópsins er að auki merkingarlaus. Hóphugsun er t.d. grundvöllur þjóðernishyggju, að ein þjóð sé annarri eða öðrum æðri.

Staðalmyndir

En ofansagt er því miður ekki eina heimskan í málinu. Kannski er stærsti vandinn sá að umræðan byggir á sleggjudómum og staðalmyndum. Staðalmyndir felast í að heimfæra á hóp ímynd sem ekki er fótur fyrir. Þær eru eitt grundvallaratriðið í mælskubrögðum og eitt af því fyrsta sem nemendur í gagnrýnni hugsun læra að uppræta.

Staðalmynd 1 er svona: „Aðkomumenn eru öðru vísi en innfæddir, annars flokks með einhverjum hætti (og eiga þess vegna að njóta lakari og færri möguleika ekta bæjarbúar)."

Staðalmynd 2 er svona: „Akureyringar eru verr haldnir af staðalmynd 1 en gengur og gerist í öðrum bæjarfélögum á Íslandi".

Báðar þessar staðhæfingar eru innantómir og ósannaðir sleggjudómar. Það að umræðan er reist á svo veikum grunni vekur spurningar um hvort hún eigi yfir höfuð rétt á sér eða hvort hún sé einhvers virði?

Í raun er nákvæmlega engin munur á staðalmyndum 1 og 2 og þessari hér, sem er býsna útbreidd:

„Íbúar í 101 Reykjavík eru almennt lattelepjandi afætur sem þola ekki landsbyggðina."

Er hægt að reisa einhverja vitræna umræðu, t.d. um byggðamál, á þessum sleggjudómi?

Ég held við ættum að taka pólska Skotann sem var í viðtali í sjónvarpinu í síðustu viku okkur til fyrirmyndar. Hann sagði: „I was not born in Scotland, but Scotland was born in me." - eða „Ég fæddist ekki í Skotlandi en Skotland fæddist í mér".

10548276_10204048003107573_4556881306762708227_o.jpg

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page