top of page

SEARCH BY TAGS: 

Myndir þú skrifa undir gegn vatni?

Er þörf á gagnrýninni hugsun? Á hún bara við þegar við erum að vanda okkur sérstaklega, stunda fræði- eða vísindastörf eða undirbúa stórar ákvarðanir? Er hún eins og sparistellið sem er bara lagt á borð þegar mikið stendur til?

Alls kyns fullyrðingum haldið að okkur á hverjum einasta degi bæði maður á mann og í gegnum fjölmiðla. Fullyrðingum sem við meðtökum án þess að veita því endilega sérstaka athygli. Frétt um fæðubótarefni sem afreksmaður í íþróttum mælir með í miðju Fréttablaði en reynist vera kostuð kynning, fullyrðing um efnahagslegan árangur sem reynist vera ein hlið í pólitísku karpi og svo framvegis. Dæmin eru mýmörg.

_MG_4676.jpg

Fjallalækur í Fnjóskadal

Bandarísku skemmtikraftarnir og sjónhverfingamennirnir Penn Jillette og Teller héldu lengi úti sjónvarpsþætti sem kallast „Penn and Teller: Bullshit“. Ætli sé ekki rétt að þýða „bullshit“ sem „kjaftæði“ í þessu samhengi. Í þáttunum, sem voru á köflum umdeildir, taka þeir fyrir og efast með rótttækum hætti um ýmislegt s.s. yfirnáttúruleg fyrirbæri, gervivísindi og ýmiskonar boð og bönn sem hið opinbera setur á. Þeim var fátt heilagt og voru oft skemmtilegir og ögrandi.

Í meðfylgjandi myndskeiði úr einum þáttanna gera þeir út manneskju sem safnar nöfnum á undirskriftarlista þar sem hvatt er til banns á tvívetnismónoxíði. Hún lýgur engu um tvívetnismónoxíðið en segir frá því hvað það er og áhrifum þess með orðfæri og tóni „umhverfismóðursýki“ eins og Penn kýs að kalla það (enviromental hysteria). Það verður nú að teljast uppnefni fremur en mótað hugtak. Nú vill svo til að tvívetnismónoxíð er sameindin H2O eða vatn!

Margir virðast tilbúnir að skrifa undir. Við skulum ekki álasa fólkinu um of fyrir að átta sig ekki á efnafræðilegu heiti vatns. Spurningin er hins vegar: Hvers vegna er fólk tilbúið að skrifa undur áskorun um bann á einhverju sem það veit ekki hvað er?

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page