top of page

SEARCH BY TAGS: 

Bænaskrá, umburðarlyndi og tómleiki

Margt hefur verið sagt og skrifað um Kristsdaginn sem fram fór í Hörpu um síðustu helgi (27. september 2014) og ég líklega að bera í bakkafullann lækinn. En mig langar engu að síður að nefna einn flöt í þágu gagnrýninnar hugsunar.

Í nafni umburðarlyndis og samstöðu komu margir og sumpart ólíkir söfnuðir til samkomunnar. Margir hafa spurt hvort okkur, sem ekki vorum þarna, komi þetta eitthvað við. Hvað fjarstaddir séu að amast við þessu? Jafnvel bæta við að enn sannist hvað skorti á umburðarlyndið hjá Íslendingum. Í þessu samhengi vildi ég fá að nefna tvennt og tengist hvort tveggja gagnrýnni hugsun.

Í fyrsta lagi vill svo til að þjóðkirkjan var meðal þátttakenda. Í undirbúningi bænahaldsins höfðu skipuleggjendur undirbúið bænaskrá þar sem tíunduð eru bænaefnin. Þegar skráin er skoðuð þá vakna spurningar um hvernig skilja eigi það sem þar stendur. Og í þjóðkrikjunni eru enn býsna margir meðlimir og ofur eðlilegt að þeir hafi skoðun á því hvað leiðtogar hennar gera í nafni félagsins. Segjum okkar skoðun ef við erum ekki sátt – nú eða dús. Sama kann að eiga við um meðlimi í öðrum kirkjudeildum sem þarna tóku þátt. Sjálfur er ég í þeirri fyrrnefndu. Svo er ekki eins og um einkasamkvæmi hafi verið að ræða sem hvergi var sagt frá. Í því ljósi má auðvitað hver sem er hafa skoðun á viðburðinum og tjá hana.

Í öðru lagi er það þetta með umburðarlyndið. Það er skeinuhætt. Tengist gagnrýninni hugsun með beinum hætti. Nánast eins og dyr og hurð. Þar sem dyrnar eru gagnrýninn hugur og hurðin er umburðarlyndið. Umburðarlyndi er a.m.k. fólgið í því að halda ró sinni yfir því sem mögulega angrar mann í fari eða hegðun annarra og sætta sig við að aðrir geri hlutina mögulega öðru vísi en við. Umburðarlyndi getur verið gott meðal við hneykslunargrini. Að láta eiga sig að hneykslast á því sem kemur okkur sannarlega ekki við. Eins og kynhneigð annarra, eða þegar einhver kaupir sér stjarnfræðilega dýran jeppa eða fer ár eftir ár eftir ár á sömu leiðinlegu sólarströndina í sumarfrí. Sem sagt oft hin mætasta dyggð.

Gagnrýninn hugur þarf hins vegar alltaf að vera opinn. Gagnrýnin hugsun er aldrei umburðarlynd. Umburðarlyndi gagnvart skoðunum eru eins og lokaðar dyr fyrir gagnrýninni hugsun. Hér er mikilvægt að muna að fyrst af öllu leggur maður af umburðarlyndið fyrir sínum eigin skoðunum.

Nú hefur biskup þjóðkirkjunnar væntanlega tekið þátt í bænhaldinu með ólíkum kirkjudeildum með umburðarlyndið í huga – enda umburðarlyndi oft talið til kristninna dyggða. Veit að hann deilir ekki skoðunum með öllum hinum. Grunar að forstöðumaðurinn safnaðarins sem situr við hlið hans í Hörpunni hafi t.a..m. skoðanir á fóstureyðingum sem hann gæti aldrei sætt sig við. En af því biskupinn er umburðarlyndur þá sest hann á sannfæringu sína. Bara í dag – Kristsdag - til að skemma ekki fyrir.

En hvað ef eitt bænaefnanna snýst um fóstureyðingar? Hvað á þá að taka til bragðs? Hvað ef biðja á fyrir breyttum viðhorfum til fóstureyðinga? Hvernig geta þeir þá setið saman hlið við hlið biskupinn, sem kannski vill virða sjálfsákvörðunarrétt kvenna, og forstöðumaðurinn sem lítur á fóstureyðingar sem synd sem ætti að banna? Hvernig eiga þeir að biðja saman og hverju á bænin að skila?

Tökum annað dæmi. Segjum að það eigi að biðja fyrir því að kennarar á öllum skólastigum megi átta sig á sannleikanum og að þeir megi fá kjark til að játa hann og halda sig að honum. Hvenig á að skilja þetta bænarefni?

Safnaðarstjórinn sem enn situr við hlið biskups þjóðkirkjunnar lítur t.d. svo á að samkynhneigðir muni fara til helvítis eftir dauðann (þrátt fyrir hina kristnu dyggð umburðarlyndi). Er það sannleikur sem hann vill að kennararnir megi átta sig á? Og gæti biskupinn yfir þjóðkirkjunni sætt sig við það? Hvaða sannleik vill biskupinn að kennararnir átti sig á?

(Hér er rétt að nefna að frá sjónarhóli gagnrýninnar hugsunar er kennari sem fundið Sannleikann trúlega sá afleitasti sem hægt er að hugsa sér).

Spurningin er þessi: Hvaða merkingu hefur bænahaldið allt í þessu ljósi – er það kannski fyrir kraft umburðarlyndisins innantómt með öllu?

Kannski hugsar biskupinn okkar: Það verður bara hver og einn að skilja bænaefnin með sínum hætti. Treystum Guði fyrir bænum hvers og eins sem hér er kominn. Hann er alvitur og getur greitt úr þeirri skoðanaflækju sem á hann gýs úr Eldborginni.

Gott og vel. En væri það ekki til marks um fullkomna og endanlega uppgjöf undir fána umburðarlyndisins og endanleg staðfesting þess að samkoman er merkingarlítil eða merkingarlaus? Bara fundur fólks sem er ósammála í veigamiklum atriðum en þegir um það í tilefni dagsins. Er nóg að sameinast í Hörpu en ekki í bænunum?

John Stuart Mill fjallar í bók sinni „Frelsinu" um tjáningarfrelsið sem hann telur að ekki megi hefta með nokkrum hætti og að allar skoðanir eigi og verði að fá að heyrast. Tekur svo djúpt í árinni að mannkynið sé rænt eign sinni sé skoðun meinað að heyrast. En hann gerir líka ráð fyrir að það sé skylda okkar að gagnrýna skoðanir og hverfa frá villu vegar reynist þær illa grundaðar. Um sannfæringuna segir hann m.a.:

Sannfæring án gagnrýni verður eins og ytri skel, sem brynjar sálina gegn öllum áhrifum, er skírskota til æðstu hvata mannsins. Hún sýnir styrk sinn í því að vernda sálina gegn hverri nýrri og lifandi sannfæringu. Sjálf gerir hún ekkert annað fyrir hug og hjarta en að halda vörð um tómleikann“ (Mill, 1978, bls. 88).

jesus_og_bornin_2.jpg

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page