top of page

SEARCH BY TAGS: 

Smelludólgar, hóphugsun og sjálfsritskoðun á fjölmiðlum

Vilji maður reyna að hafa ljós á skynsemistýrunni í huga sér og hafa sjálfstæða skoðun á álitamálum í dagsins önn er aðgangur að sjálfstæðum og gagnrýnum fjölmiðlum nauðsynlegur. Þeir þurfa að vera áræðnir og áreiðanlegir. Það er vitaskuld nokkuð stór spurning hvaða eiginleikar fjölmiðils eru nauðsynlegir til að hann geti talist áræðinn og áreiðanlegur. Ég sneiði hjá henni hér en leiði hugann að því sem gæti komið í veg fyrir áræðni og áreiðanleika fjölmiðla.

Sjálfsritskoðun, blankheit, hóphugsun og smelludólgar koma við sögu.

Sjálfsritskoðun

Á dögunum var ágætt málþing við Háskólann á Akureyri undir yfirskriftinni „Tjáningarfrelsi og félagsleg ábyrgð“ þar sem m.a. var fjallað um tjáningarfrelsið tengsl þess við frelsi fjölmiðla. Þar talaði Mikael M. Karlsson og vitnaði í fræg orð Dans Rathers: „Fear rules almost every newsroom in the country" eða „Ótti ræður ríkjum á flestum

Dan Rahter.jpg

fréttastofum landsins“. Rather hefur gert sjálfsritskoðun blaðamanna að umfjöllunarefni ekki síst á stríðstímum - eða öllu heldur þegar Bandaríkin hafa háð stríð í fjarlægum heimshlutum. Í viðtali fullyrti hann að óttinn við ásakanir um skort á föðurlandsást eða hollustu við föðurlandið komi í veg fyrir að blaðamenn spyrji erfiðustu spurninganna og grafist af alvöru eftir svörum. Hann gekk svo langt að líkja þessu við þá hroðalegu aftökuaðferð sem tíðkaðist í Suður-Afríku þegar logandi hjólbarðar voru hengdir voru um háls meintra svikara. Að blaðamenn óttuðust að fá um hálsinn logandi hálsmen föðurlandssvikarans.

Sjálfsritskoðun, það að halda aftur af sér eða breyta eigin verkum án þess að verða fyrir beinum opinberum utan að komandi þrýstingi, er sannarlega ein af þekktum ástæðum þess að fólk fer ekki þangað sem leitin að sannleikanum ætti að leiða það. Á við um blaðamenn og margar aðrar stéttir.

Getur haft þær augljósu afleiðingar almenningur fær ekki nauðsynlegar upplýsingar, getur ekki myndað sér gagnrýna skoðun á því sem til umræðu er. Getur haft þær augljósi afleiðingar að rangar ákvarðanir eru teknar vegna þess að mál eru ekki upplýst eða að aðhald skortir.

Blankheit, eignarhald og hóphugsun

Í íslensku samhengi er sjálfsritskoðunin iðulega til umræðu, ekki síst vegna smæðar samfélagsins. Sem blaðamaður þekkir þú fljótt einhvern sem tengist viðkvæmu máli sem þú vilt upplýsa. Því minna samfélag því líklegra. Talsvert er fjallað um eignarhald fjölmiðla, sérhagsmuni eigenda og möguleg áhrif þeirra á ritstjórnir og fréttastofur. Hvort þeir geti mögulega spillt frjálsri umfjöllun sem hefur upplýsingu að leiðarljósi. Ríkir sérhagsmunir eigenda geta líka leitt til sjálfsritskoðunar.

Enn augljósari ástæður fyrir takmörkun á áreiðanleika og áræðni fjölmiðla er tímaskortur og fámenni á ritstjórnum þar sem fjármagn er af skornum skammti. Skiptir þá engu löngum blaðamanna og ritstjórna til að grafast fyrir um rætur mála og velta við öllum steinum.

Hafi fjölmiðill mjög afgerandi opinberan málstað í umdeildum málum má velta fyrir sér hættunni á „hóphugsun“ (e. groupthink) meðal starfsmanna hans. Hóphugsun lýsir sér í því að hópar leggja ofuráherslu á samstöðu innan hópsins og að ákvarðanir og álit séu samhljóða. Sterk samsömun innan hópsins er helsta skilyrðið og að hegðunar- og skoðanaviðmið séu skýr. Hættan er sú að þeir útiloki innri og ytri gagnrýni og hafi litla þolinmæði fyrir skoðanamun innan hópsins. Fyrir vikið tekur hópurinn óskynsamlegar ákvarðanir og afstöðu. Enn meiri hætta er á þessu ef fyrir fjölmiðlinum fer afdráttarlaus og sterkur foringi. Enda er hóphugsun nýtt sem tæki í hernaði og alls staðar þar sem þarf að þjappa fólki saman gegn ógn eða óvini. – Skoðamunur er flattur út og refsað er grimmt fyrir frávik frá hegðun og skoðunum hópsins. Svart-hvít sýn á heiminn og hugsunarhátturinn „við og þeir“ verður alsráðandi. Á fjölmiðli getur sjálfsritskoðun verið birtingarform hóphugsunar. Blaðamaður áræðir ekki að taka á málum ef tökin samræmast ekki línunni sem fjölmiðillinn eða ritstjóri hans hefur.

Smelludólgar - vinsælast og fábreyttast?

Á áðurnefndri ráðstefnu um fjölmiðla í Háskólanum á Akureyri gerði einn fyrirlesara, Andrea Hjálmsdóttir lektor, að umtalsefni listana yfir mest lesnu fréttirnar sem birtast á vefmiðlunum. Hún hafði veitt því athylgi að fréttir af undirsíðum miðlanna sem eru sérstaklega ætlaðar konum (bleiku síðurnar) voru oftar en ekki ofarlega á listunum. Ekki gott að fullyrða en líklega kannast flestir við hvað þessir listar geta frá sjónarhóli upplýstrar umræðu verið innihaldslitlir.

Svo virðist sem að fyrirsagnir fréttanna ráði mestu hvort þær rata á vinsældarlistana. Þær þurfa að vera smellnar í orðsins fyllstu merkingu. Þeir sem eru snjallir að setja saman fyrirsagnir sem vekja forvitni og löngun til að smella hafa meira að segja hlotið heitið „smelludólgar“. Ekki ný vísindi að fyrirsagnir selji. Lausasölublöð hafa alltaf nýtt sér krassandi fyrirsagnir í söluskyni. Án þess að ég þekki tölurnar þá virðist sem lestur fólks á fréttum ráðist að umtalsverðu leyti af því sem nær á listana yfir mest lesnu fréttirnar – sem eru þá aftur líklegar til að berast inn á samfélagsmiðlana sem aftur festir fréttir í sessi á vinsældalistunum. Áður takmarkaðist lestur frétta af prentuðum eintökum eða útsendingartímunum frétta. Lesandi þurfti að hafa blaðið í höndunum eða vera hjá viðtækinu til að geta kynnt sér efnið. Nú eru flettingar algjörlega óháðar fjölda útgefinna eintaka og ljósvakafréttir má nálgast hvenær sem er. Í athygliskeppninni á samfélagsmiðlunum skiptir fyrirsögnin enn meira máli.

Spurningin er hvort þessi nýji veruleiki auki lesendum víðsýni og bæti upplýsingagjöf fjölmiðlanna? Eða stuðlar hann að rörsýn og dregur úr gagnrýnum lestri? Láta lesendur umvörpum stjórnast af vinsældalistunum og keppast blaðamenn við að finna stórar fyrirsagnir á lítil mál og viðfangsefni sem fela í sér furðusögur og persónulega harmleiki?

Felur smellakappið í sér alveg nýjar áskoranir fyrir blaðamenn sem vilja ástunda gagnrýna umfjöllun en verða stöðugt undir fyrir afþreyingarfréttum? Felur smellakappið í sér nýjar áskoranir fyirr lesendur sem vilja vera gagnrýnir en sogast ósjálfrátt ofan í svelginn? – „Mest lesið í dag“.

Listinn yfir mest lesnu fréttirnar á Mbl.is þann 8. nóvember 2014

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page