top of page

SEARCH BY TAGS: 

Hvers vegna ætti maður að afþakka leiðréttinguna?

Ég tók eftir hugmynd eða raunar áskorun Marinós G. Nálssonar og Hörpu Karlsdóttur um að stofnaður verði sérstakur sjóður sem myndaður verði með þeim fjármunum sem sparast við það að fólk afþakki niðurfærslu á húsnæðislánum sínum. Slær mig sem snjallt að gera fólki kleyft að afþakka í þágu góðs málefnis eins og t.d. uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Gæti meira að segja aukið sátt um aðgerðina í samfélaginu.

Hvers vegna að afþakka? En ég fór að velta fyrir mér hvers vegna ætti fólk að vilja afþakka. Ég lét mér í hug koma a.m.k. þetta:

StridsmennHjartans3.jpg

a) Þú aðhyllist einstaklingshyggju. Þú vilt að frelsi einstaklingsins sé sem mest og afskipti ríkisvaldsins af honum sem minnst. Réttindunum sem felast í frelsinu fylgir sú skylda að bera ábyrgð á eigin gjörðum. Mögulega viltu að ríkið stuðli að öryggi borgaranna, að heilbrigðisþjónusta sé öllum tryggð með samrekstri sem og menntun í.þ.m. menntun barna. Í þennan hóp falla líklega allir sjálfstæðismenn.

Það að taka lán, segir þú, er ekki að fá sjúkdóm heldur ákvörðun sem hver og einn tekur og ber ábyrgð á. Ríkið á ekki að veita neina sjúkdómstryggingu fyrir bankakerfið og lántakendur. Af þessum sökum finnst þér skuldaniðurfærslan óréttlætanleg og afþakkar þinn hlut.

b) Þú aðhyllist félagshyggju. Þú vilt að opinber fjárframlög eins og þau í niðurfærslunni, ráðist af raunverulegri þörf einstaklinganna fyrir aðstoð. Þú veist að vafatilfelli verða einhver um hvort raunveruleg þörf er til staðar eða hvort hún er byggð á óréttlætanlegum forsendum (eins og gáleysislegum lántökum). Þú telur samt að með því að meta þarfir einstaklinga fyrir hjálp og byggja fjárframlögin á því fáist nákvæmari nýting á fjármuna. Hugmyndafræðin að baki er samhjálp í þágu þeirra sem minna mega sín. Í þennan hóp fellur væntanlega félagshyggjufólk í öllum flokkum, sér í lagi Samfylkingu og Vinstri grænum.

Ekkert er hirt um þetta sjónarmið í niðurfærslunni eins og hún er útfærð því þeir fá líka sem ekki þurfa (hjón sem skulda 7 mkr. stendur til boða niðurfærsla upp á 3,5 mkr.). Af þessum sökum finnst þér skuldaniðurfærslan óréttlætanleg og afþakkar þinn hlut.

c) Þú ræður mjög vel við að greiða af skuldum þínum og þarft að neita þér um fátt eða ekkert, sama hvort skuldaniðurfærslan sem þér stendur til boða kemur til framkvæmda eða ekki. Af þessum sökum afþakkar þú þinn hlut.

d) Nokkuð sem getur átt við alla í hópi a), b), c) og fólk sem fellur ekki í þá flokka. Þú telur ekki að um neinn almennan forsendubrest hafi verið að ræða. Það gerðist sem getur alltaf gerst í verðtryggðu íslensku umhverfi; að verðbólga jókst mjög hratt öllum til ama. Bæði fasteignaeigendum sem og öllum öðrum. Fasteignamarkaðurinn bregst hins vegar við slíku með því að verð á fasteignum hækkar og nær verðlagi á endanum. Enda hefur fjárfesting í fasteignum á stærri markaðssvæðum landsins iðulega verið mjög arðbær. Á árunum fyrir hrun mátti hagnast gríðarlega á fasteignaviðskiptum á stuttum tíma. Markaðurinn hefur þegar náð í skottið á þeirri verðlagshækkun sem varð í kjölfar hruns. En engin veit hvað hann á í húsnæði sínu fyrr en það er selt. Af þessum sökum finnst þér skuldaniðurfærslan óréttlætanleg og afþakkar þinn hlut.

Þess má geta að þeir sem búa utan stærri markaðssvæða hafa alla tíð búið við algjöran forsendubrest og alls ekki getað gert ráð fyrir að fá fjárfestingu í íbúðarhúsnæði sínu til baka. Ráðamenn í öllum flokkum hafa kært sig kollótta um það.

Nú. Svo er væntalega nokkur hópur fólks sem hefur alls ekki efni á því að afþakka skuldaniðurfærsluna eða einfaldlega kærir sig ekki um það. Í raun er sérkennilegt að einhver skuli vera að reyna sýna fram á að svo og svo stór hluti þiggjenda sé með tekjur undir þessu og þessu marki. Hugmyndafræði aðgerðarinnar hirðir í raun ekkert um stöðu fólks. Í sparnaðarskyni voru sett efri mörk á hvað fólk geti fengið mikið. Annað ekki.

Persónuleg gjöf til þín og ekki við hæfi að gagnrýna? Hugmyndafræði aðgerðarinnar gerir ekki ráð fyrir að nokkur maður afþakki. Hún gerir ráð fyrir að þeir sem þurfi ekki niðurfærslu fái hana samt en drífi sig út og eyði peningum til örva hagkerfið öllum til hagsbóta - ekki síst þeim sem þurfa raunverulega aðstoð og meiri aðstoð en aðgerðin sem slík færir þeim. Með þetta í huga hefði hugsanlega átt að láta aðgerðina ganga yfir alla hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þetta er jú almenn aðgerð.

Og svo: Mikilvægt er að muna að skuldaniðurfærslan er ekki persónulegur greiði við hvern og einn sem hennar nýtur. Þó fólk hafi þurft að sækja um hana og þó einhverjir handhafar ríkisvaldsins vilji vafalaust líta út sem góðu gæjarnir nú um stundir. Það er heldur ekki nauðsynlega sama ákvörðunin: Að ákveða hvað manni finnist um aðgerðina eða ákveða hvort maður óskar eftir að njóta hennar. Þetta er e.t.v. brothættara fyrir stjórnmálamenn en þeir eru líka borgarar. Það verður þó að teljast fullkomin óþarfi og klaufalegt af þeim sumum að lýsa tilfinningalegri vanlíðan yfir því að „þurfa“ að taka við niðurfærslunni. Það bara skiptir engu máli fyrir umræðuna eða málefnið hvernig þeim líður í tilfinningalífinu sínu yfir þessu. Gert er gert. En það að ekki er um persónulegan gjörning að ræða þar sem Simmi gerir Gunnu greiða, þýðir að þó fólk hafi sótt um niðurfærsluna þá hefur það ekki þar með lagt blessun sína yfir aðgerðina. Það hefur heldur ekki lofað því að gagnrýna hana ekki. Ég hef a.m.k. hvergi lesið það smáa letur.

Þá væri verulega illa fyrir okkur komið ef fjármunir frá hinu opinbera ættu að múlbinda skoðanir okkar. Álíka illa komið eins og ef þeir ættu að stjórna því að við kysum einn stjórnmálaflokk öðrum fremur í næstu kosningum. Ljósmynd: www.akureyri.is

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page