top of page

SEARCH BY TAGS: 

Hvað á manni að finnast um hommana?

Svarið við spurningunni er: Ekkert.

Samt

Í framhaldi af tillögu sem fram kom í bæjarstjórn Hafnarfjarðar á dögunum um aukna fræðslu um málefni hinseginn fólks í grunnskólum bæjarins urðu ýmsir – ekki kannski mjög margir – til að tjá skoðun sína á fræðslunni og samkynhneigðu fólki.

Algeng viðbrögð þeirra sem lýstu sig andvíga voru á þá leið að vissulega hefði viðkomandi ekkert á móti samkynhneigðum einstaklingum en myndi fyrr dauður liggja en til greina kæmi að þeir fengju að stíga fæti inn í skólana hjá börnunum með einhverja fræðslu. Hér vaknar óhjákvæmilega spennandi spurning: Hvernig stendur á því að fólk geti ekkert haft á móti samkynhneigðum en geti á sama tíma með engu móti hugsað sér neina skólafræðslu um þeirra mál? Í þessu dæmi er mikilvægur lærdómur um hvernig við myndum okkur skoðanir.

Góðar ástæður?

Einföld skilgreining á rökum er svona: Rök eru góðar ástæðar til að trúa einhverju eða hafa það fyrir satt. Þannig að þegar maður reynir að færa rök fyrir skoðun sinni þá er hann að tíunda atriði sem hann telur vera góðar ástæður fyrir hann – og um leið aðra til að trúa skoðuninni eða hafa fyrir sanna.

Svo virðist sem sumir þeirra sem tjáðu sig gegn hinseginn fræðslunni hafi haft á móti henni vegna þess að þeir gáfu sér að hún hlyti að snúast um kynlíf samkynhneigðra. Drógu sumir upp magnaðar og all berorðar lýsingar á því hvernig þeir gátu séð þetta fyrir sér. Í útvarpsþætti sagði kona ein í símatíma:

„Ætla þeir að sýna hvernig þeir eðla sig? Ég myndi bara spyrja þessa 19 ára stelpu [varabæjarfulltrúann sem átti tillöguna í Hafnarfirði] hvort hún ætli að gera það. Mér finnst að hún ætti að sýna hvernig hún og hennar lesbía myndu eðla sig fyrir framan börnin. Það er raunverulegt og þá ofbýður börnunum. Lögregla á að tala við þessa 19 ára stúlku. Eru þetta allt hommar þessir menn í Hafnarfirði? Myndi nokkur leyfa henni að þukla á börnunum?“

Í þessum þætti kom reyndar margsinnis fram að engin hafði hina minnstu hugmynd um hvernig þessi fræðsla ætti að ganga fyrir sig. Samt gaf þáttastjórnandinn sér að um innrætingu yrði að ræða og innhringjendur að hún hlyti að vera ýmist klám eða barnaníð. (Á sama tíma hvatti stjórnandinn hlustendur til að taka þátt í „skoðanakönnun“ á heimasíðu útvarpsstöðvarinnar um hvað þeim fyndist um hinseginn fræðsluna. Alveg hávísindalegt!)

Þarna virðast rökin fyrir því að vera á móti hinsegin fræðslunni einfaldlega vera sú skoðun að hinsegin fólk sé hættulegt börnum. Hvers vegna? Jú vegna þeirrar hugmyndar, að því er virðist, að inntak þess að vera hinseginn eða samkynhneigður sé fyrst og síðast fólgið í því að stunda kynlíf með manneskju af sama kyni. Og þar með muni fræðslan snúast um það! Í það minnsta kemst lítið annað að í kollinum hjá þeim sem svona hugsar.

Satt að segja hélt ég í sakleysi mínu að þessi ástæða til að vera á móti samkynhneigðum væri nánst alveg horfin. Hvers vegna?

a) Jú vegna þess að hún byggir í fyrsta lagi á einfeldningslegri sýn á samlíf para (og gildir þá einu hvort um er að ræða samkynhneigða, gagnkynhneigða eða tvíkynhneigða). Venjulega gengur fólk ekki um dæmandi pör í kringum sig eftir því hvernig það gæti ímyndað sér að það „eðli sig“ í sínu einkalífi. Það væri raunar dálítið sjúkt og ábyggilega mjög heftandi.

Hugsi maður málið aðeins örstutta stund þá kemur í ljóst að kynlíf fólks er gríðarlega fjölskrúðugt – og það kemur engum við að því skilyrði uppfylltu að þeir sem taka þátt í leiknum séu jafningjar og í honum af fúsum vilja. Það að geta ekki leitt hugan að pörum í samfélaginu án þess að hugsa jafnframt um hvernig kynlífi þau lifa er algjörlega vandamál þess sem þannig hugsar og er með engu móti hægt að bera á borð sem rök með eða á móti nokkrum hlut.

b) Í öðru lagi á sér stað í höfðinu á þeim sem svona hugsar varasamur samsláttur. Það er samsláttur milli þess sem viðkomandi telur annars vegar geðslegt eða ógeðslegt og hins vegar þess sem viðkomandi telur rétt eða rangt. Og af því að sá sem skoðunina hefur getur ekki með nokkru móti hugsað sér kynlíf með manneskju af sama kyni (eða samkynhneigðra manneskja af gagnstæðu kyni við sjálfan sig) þá hlýtur slíkt kynlíf þar með að vera rangt og/eða óeðlilegt.

Vitaskuld ætti að vera óþarfi að útskýra af hverju þetta eru ónothæf rök. En finnist mér súrt slátur, hrogn eða köngulær ógeðslegar þá eru þessi fyrirbæri þar með röng og/eða óeðlileg með sömu „rökum“. Sem er augljós þvæla. Það er iðulega spilað á þennan samslátt sem verður í höfðinu á okkur – þannig er ekki tilviljun að í ævintýrum er ljóta skrímslið jafnan illt.

Stundum reynum við hanga á skoðunum okkar með þessari aðferð: Við viljum sveigja veruleikann að hugmyndum okkar um hann – en leyfum veruleikanum ekki að móta hugmyndir okkar. Lengi er hægt að halda í ónothæfar skoðanir með þessu móti. Í þessu tilfelli gæti hinsegin fræðsla gert kraftaverk – með því einmitt að færa veruleikann til fólks.

Innræting og „normalisering“

Það er eðlilegt að fólk spyrji um hinsegin fræðsluna, hvert sé markmið hennar, hvernig hún fari fram og í hverju hún sé fólgin. Það er skylda þeirra sem fyrir fræðslunni tala að útskýra og skapa traust milli foreldra, skóla og fræðenda. Fyrirfram er samt sérkennilegt að gefa sér annað en að hún sé nærgætin, heiðarleg og snúist um að kenna hve eðlilegt er að við erum ekki öll eins. Sem er eða ætti að vera einn megin þátturinn í skólastarfi almennt. Það sem sagt hefur verið um hinsegin fræðsluna er einmitt í þessa veruna. María Rut Kristinsdóttir, varaformaður Samtakanna 78 segir í viðtali að:

„...fræðslan hafi ná­kvæm­lega ekk­ert með kyn­líf að gera held­ur snú­ist hún um ást og lífs­ham­ingju fólks. „Ég skil ekki hvernig ást og ham­ingja get­ur verið ljót og óeðli­leg, hvernig get­ur verið ljótt að vera ham­ingju­sam­ur og elska?““

En hin ástæðan sem greina má að fólk nefni gegn hinsegin fræðslunni er við fyrstu sýn dálítið frábrugðin hinni fyrri. Hana má endursegja einhvernveginn svona: Markmið Samtakana 78 með hinsegin fræðslu er að gera samkynhneigð venjulega – að „normalisera“ hana. Sem felur óhjákvæmilega í sér þá skoðun að samkynhneigð sé „abnormal“ að hún sé óeðli, eins og það er stundum orðað. Á þetta er gjarnan hengd umræðan um þjóðkirkjuna og baráttan fyrir því að samkynhneigðir njóti innan hennar sömu réttinda og gagnkynhneigðir. Þá er uppi á tengingnum það sama: Að baráttan sé í því fólgin þvinga kirkjuna til að vera eitthvað sem hún eigi ekki að vera. Í ljósi kristninnar telja sumir að samkynhneigð sé synd sem kirkjan megi aldrei leggja blessun sína yfir.

Um þetta þyrfti að hafa langt mál sem ég ætla ekki að gera að þessu sinni. Þjóðkirkjan hefur lagt sínar línur – en meðal þjóna hennar er ekki eining. Læt nægja að nefna að kristin trú hefur þróast og breyst gríðarlega. Rými hennar í heimsmyndinni og hugmyndaheimi okkar hefur þrengst mikið síðustu rúmar tvær aldirnar. Það hefur haldist í hendur við aukna þekkingu okkar á veruleikanum. Ótal kennisetningar Gamla testamentisins hafa enga þýðingu lengur, sem betur fer. Frá mínum bæjardyrum séð er líklega tvennt sem kristinn maður verður að trúa og halda í heiðri alveg sama hvað gengur á. Annars vegar að Jesú Kristur sé eingetinn sonur Guðs og hins vegar að hann hafi dáið á krossi og risið upp frá dauðum. Þessi tvö atriði standa í mörgum – líka sumum þjónum kirkjunnar (sem vilja kannski sjá þarna myndlíkingu eða ljóð). Að öðru leyti er kirkjan samfélag sem þróast í takt við samfélagið sem hún þjónar. En innan kirkjunnar tekst fólk á - sem er eðlilegt en hún þarf um leið að heiðra hlutverk sitt sem þjóðkirkja.

En að hinu: Að fyrir hinsegin fólkinu vaki ekki annað en að gera samkynhneigðina venjulega og viðtekna. Að hinsegin fræðslan sé ekki fræðsla heldur lævís barátta. Byggir á þeirri grundvallarskoðun að samkynhneigð sé óeðlileg – ónáttúra. Í besta falli segir sá sem er þessarar skoðunar að samkynhneigð sé lífsstíll sem fólki sé frjálst að velja sér, á meðan það lætur annað venjulegt fólk í friði.

Nú. Sú staðreynd að ég er örvhentur segir ekkert um mig annað en að ég geri marga hluti með vinstri hendi sem flestir aðrir gera með þeirri hægri. Minni hluti mannkyns er og hefur verið örvhentur og verður ef að líkum lætur. Nú kann einhver að halda því fram að það sé bara óeðli að vera örvhentur. Ef horft sé til hins venjulega þá sé ljóst að meirihluti mannkyns sé rétthentur. Því sé rétt að bæla þetta óeðli í örvhentum og venja þá af þessum ósið eða hjálpa þeim að láta af hinum afbrigðilega „lífsstíl“.

Eða: Þú getur svo sem verið örvhentur svo lengi sem þú abbast ekki upp á okkur rétthenta.

Nú er alveg sama hversu margir munu halda því fram að það að vera örvhentur sé óeðli og alveg er sama hversu margir verða sammála um að það sé bara lífsstíll, það gerir það hvorki að óeðli né lífsstíl. Gjörsamlega er sama hve margir halda því fram að það sé bara aumingjaskapur og undanlátssemi við sjálfan sig að nota vinstri hendina við skriftir þegar rétt er að nota þá hægri – þá verður það aldrei val að vera örvhentur.

Nákvæmlega hið sama gildir um samkynhneigð. Engu breytir hversu margir verða sammála um að hún sé synd, lífstíll eða aumingjaskapur – hún verður ekkert af þessu fyrir vikið.

Og nú vill svo til að við erum kominn á sama stað og áðan. Sú skoðun að samkynhneigð sé óeðli sem samkynhneigðir og stuðningsfólk þeirra vilji „normalisera“ byggir á sömu aðferð og áðan: Veruleikinn skal sveigður að hugmyndinni sem ÉG hef. Ef mér líður eins og samkynhneigð sé óeðli þá hlýtur hún að vera það!

Til mótvægis

Nú vill svo til að við eigum blessunarlega kost á fleiri aðferðum við að mynda okkur skoðun. Við getum til dæmis farið og rannsakað veruleikann eins og hann er. Skoðað raunverulegt fólk og reynt svo að kostgæfni að mynda okkur skoðun sem byggð er á þeirri reynslu. Þetta er nokkurn veginn sama aðferð og notuð var þegar mannkynið komst að því að jörðin er því sem næst kúla en ekki flöt skífa. Án efa öruggasta leiðin til skoðanamyndunar og þeirrar gerðar að geta fækkað ágreininginsefnum okkar umtalsvert. Fjöldamargir raunverulegir hlutir eru þeirrar náttúru að vera með öllu óháðir skoðunum okkar á þeim. Þegar þannig háttar þurfum við ekki að rífast um þá.

Rannsókn á örvhentum mun leiða í ljós að þeir eru eins og fólk er flest og það er engin leið að hengja fyrirfram neina aðra eiginleika á þann sem hefur stimpilinn örvhentur, en tilhneiginuna til að beita fremur vinstri hendinni en hægri þegar þörf er á styrki hendi eða nákvæmum fínhreyfingum. Enga aðra eiginleika.

Nákvæmlega sama á við um samkynhneigð. Á þann sem hefur þann stimpil er fyrirfram enga aðra eiginleika hægt að hengja en þennan: Laðast að einstaklingum af eigin kyni en ekki af gagnstæðu kyni. Eftirgrennslan myndi leiða þetta í ljós. Og að meðal samkynhneigðra munum við finna jafn fjölskrúðugt mannlíf, lífshætti, skoðanir og lífstíla og meðal þeirra sem eru gagnkynhneigðir. Þetta er sem betur fer reynsla og skoðun langflestra Íslendinga. Við erum svo lánsöm að hafa boðið fólk velkomið út úr skápunum.

Það er nefnilega ofur eðlilegt að vera hommi.

Óþarfa áhyggjur?

Það kann að vera þreytandi að fara í gegnum hluti sem manni finnast svo sjálfsagðir og þeir sem fara hér á undan. Margir hafa lagt til að þeir séu hundsaðir sem hæst láta gegn samkynhneigðum. Að þeim sé ljáð of mikið vægi með því að takast á við þá. Ég er ósammála því.

Mér finnst ekki að við eigum að banna skoðanir eða hefta tjáningarfrelsi eða fá lokað heimasíðum þeirra sem eru á annarri skoðun. Skoðanirnar verða að heyrast til að mögulegt sé að takast á við þær.

Þær skoðanir gegn samkynhneigðum sem hér eru til umræðu eru líka áminning um að við skiljum ekki mannréttindi öll með sama hætti og við sjáum ekki hvert annað sömu augum. Það er mikilvægt að skilningurinn sé sem allra mest sameiginlegur. Sagan kennir að réttindi glatast hraðar en þau ávinnast.

En svarið við spurningunni um hvað manni eigi að finnast um hommana er í raun: Ekkert.

Af hverju? Af því að það er mál hvers og eins.

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page