top of page

SEARCH BY TAGS: 

Hvernig gat Ólafur Ragnar sigrað?

Flestir eru í einhverjum skilningi fylgjandi gagnrýninni hugsun. Vilja t.d. að hún fái meira pláss í skólakerfinu og í fjölmiðlum. Samt er kannski ekki alveg ljóst hvað hún er? Ég hef tekið þátt í að kenna á námskeiðinu „Upplýsingarýni" í Háskólanum á Akureyri en á því fá nemendur í hendur tæki eða aðferðir til að vera nokkru gagnrýnni á upplýsingar og staðhæfingar sem flæða fram „í hinu grugguga fljóti alls sem er" eins og segir í kvæðinu. Venjulega ljúka nemendur upp einum rómi: Hvers vegna var okkur ekki kennt þetta fyrr!

Hvað sem öðru líður þá erum við iðulega skeikul í skoðunum og í ákvörðunum okkar og jafnvel að gerum kerfisbundið sömu villurnar aftur og aftur. Daniel Gilbert prófessor í sálfræði við Harvard-háskólann í Bandaríkjunum segir frá því í bók sinni „Hnotið um hamingjuna" hvílíka uppgötvun hann gerði þegar hann sá í fyrsta sinn 10 ára gamall, mynd af Müller-Lyer línunum og fleiri sjónhverfingum, í bókargersemi á æskuheimilinu:

muller-lyer.gif

Þessi fræga sjónhvefing sem blekkir okkur til að halda að efri línan sé lengri en sú neðri, þó við vitum að þær eru jafn langar. Gilbert varð gagntekinn að þeirri staðreynd að einfaldar myndir gátu látið heilann trúa því sem hann vissi fyrir að er rangt. Og ekki bara það heldur eru mistökin kerfisbundin - allir gera sömu glappaskotin.

Við virðumst hafa margskonar tilheigingar sem stjórna hugsun okkar og þar með ákvörðunum nánast án þess að við fáum rönd við reist. Müller-Lyer línurnar eru upplýsandi um skynjun okkar en líklega meira um þær ályktanir sem við drögum af henni. En hvað með þegar við myndum okkur skoðanir? Þegar við sjóðum saman meðvitað og ómeðvitað viðhorf til manna og málefna?

Olafur_Ragnar_Grimsson_-_Davos_2011.jpg
Þóra A.jpg

Tökum eitt einfalt dæmi: Kannast einhver við að hafa, í síðustu forsetakosningum á Íslandi, varla þekkt nokkurn mann sem ætlaði að kjósa Þóru Arnórsdóttur? Eða á hinum vængnum að kannast við spurninguna: „Hverjir ætla eiginlega að kjósa Ólaf Ragnar, ég þekki bara engan?" Samt vann Ólafur með nokkrum yfirburðum það kusu hann um 84 þúsund manns eða 53% þeirra sem mættu á kjörstað og samt fékk Þóra 33% eða um 53 þúsund atkvæði.

Hvernig getur þá staðið á því að maður þekki „eiginlega engan" sem ætlar að kjósa Ólaf? Fyrir því kunna að vera fleiri en ein ástæða en svonefnd „fölsk sammælisáhrif" koma áreiðanlega við sögu. Fölsk sammælisáhrif er hugsanavilla eða huganaskekkja (e. cognitive bias) sem birtist í því að við upplifum sammæli í skoðunum sem ekki er fótur fyrir. Við teljum að viðhorf sem við höfum sé ríkjandi. Vera má að Fésbókin góða ýti undir þessa tilhneiginu því hún smalar saman fólki sem hefur fyrir líkar skoðanir, vera má að hún dragi úr líkunum á að við hittum fyrir fólk sem er annarrar skoðunnar. Svo er hitt að við látum iðulega andstæðar skoðanir sem vind um eyrun þjóta. Á netinu eltum við uppi greinar og athugasemdir sem styðja þá skoðun sem við höfðum fyrir. Tilhneigingin er kerfisbundin eins og sjónhverfingarnar að því leyti að við gerum þessa villu aftur og aftur og við gerum öll sömu skissurnar.

Hér á gagnrýnin hugsun að geta orðið að leiðarljósi. Spurningin um hvað hún sé verðskuldar fáeinar atrennur hið minnsta. Þær bíða um sinn. En látum þetta svar Páls Skúlasonar duga í bili:

„Gagnrýnin er sú hugsun sem fellst ekki á neina skoðun nema hún hafi fyrst rannsakað hvað í henni felst og fundið fullnægjandi rök fyrir henni.“

(„Er hægt að kenna gagnrýna hugsun", Pælingar, 1987, bls. 70).

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page