top of page

SEARCH BY TAGS: 

Lánaniðurfærslan, akkeri og spunameistarar

Vefblaðið Kjarninn bar fram spurningu dálki sínum „Bakherbergið“ sem geymir reyndar fyrst og fremst óformlegar fréttir. Sumir myndu ganga svo langt að kenna hann við Gróu á Leiti. En spurningin var á þá leið hvort hugsast gæti að fyrsta leiðrétting húsnæðislána einstaklinga yrði upp á aðeins kr. 261 þúsund að meðaltali á hvern styrkþega. Að menn í Bakherbergjunum hafi reiknað sig að þessari líklegu niðurstöðu að hver og einn fengi rétt rúma milljón sem skiptist niður á fjögur ár. Upphæðin sem slík ekki öllu máli fyrir samhengið hér – einungis það að gera má því skóna að margir þeirra hafi vænst meira.

Höfundur pistilsins í Kjarnanum gerir það líka að umstalsefni: „ Stjórnvöld þurfa því að undirbúa almannatengslin nokkuð vel áður en niðurfellingaráhugafólkið fær fréttirnar því hætt er við að þeir allra síðustu sem enn eru á þeim vagni muni kippast við, og jafnvel hoppa af, þegar pizzu sendingin margunmrædda verður lítið annað en ísköld hálf níu tomma.“

Nú kann að vera að Kjarninn hafi lagt lóð á vogarskálar spunameistara stjórnvalda. Meðvitað eða ómeðvitað. Þar kemur við sögu ein hugsanaskekkja – eða öllu heldur flýtileið hugsunar eða þumalfingursregla hugsunar eins og það er stundum kallað (e. heuristic). Kannski mætti kalla það skammhugsun á íslensku? Þegar við komumst að óskynsamlegri eða órökrænni niðurstöðu með beitingu skammhugsunar veldur það skekkju (e. bias). Sumar svona skekkjur eru kerfisbundnar.

Skammhugsunin (best ég prófi að nota það orð í tilraunaskyni) sem kom upp í huga minn er kölluð akkerið. Hún lýsir sér í því að við byggjum mat okkar ýmiskonar líkindum á þeim upplýsingum sem okkur berast fyrst um viðfangsefnið. Getur verið mat á líklegum fjölda eða líkum á því að eitthvað gerist með tilteknum hætti eða gerist ekki. Og þetta virðist fara fram án þess að í þessum fyrstu upplýsingum felist endilega rökstuddar vísbendingar um niðurstöðuna. Á sér margar birtingarmyndir. Á fjármálamarkaði hengir fólk sig mögulega á fyrstu upplýsingar um væntan ávinning af viðskiptum með bréf í fyrirtæki og miðar allt mat við þær upplýsingar. Sálfræðingarnir Daniel Kahneman og Amos Tversky, sem ásamt öðrum mótuðu og kynntu til leiks áhrifamiklar kenningar um hugsanaskekkjur og skammhugsanir, gerðu rannsókn á akkerinu. Þeir spurðu alla þátttakendur í tveimur hópum rannsóknarinnar: „Hve hátt hlutfall þjóða í Afríku eru meðlimir í Sameinuðuþjóðunum?“ Fáir vita rétta svarið við þessari spurningu og flestir eru því að giska. Um leið og fólk var beðið að giska var bætt við fyrir annan hópinn „ Heldurðu að hlutfallið sé hærra eða lægra en 10%?” en „Heldurðu hlutfallið sé hærra eða lægra en 65%“ fyrir hinn hópinn.

Í ljós kom að meðaltalssvarið hjá fyrri hópnum var 25% en 45% hjá seinni hópnum. Þannig ráðast ágiskanirnar af þeim upplýsingum sem við fáum fyrst. Og þetta er kerfisbundinn skekkja, hún endurtekur sig aftur og aftur og við styðjumst öll við skammhugsanir af þessum toga. Í annarri útgáfu af þessari tilraun var rúllettuhjól látið ráða tölunni sem sett var inn til viðmiðunar. Þó þátttakendur sæu að viðmiðunin yrði til af hreinni tilviljun þá breytti það engu um áhrifin af akkerinu.

Akkeri - spurning.jpg

En aftur að Kjarnanum og lánaleiðréttingunni. Nú hefur miðillinn skutlað út akkeri sem við grípum kannski. Áhrifin fara væntanlega mikið eftir því hversu víðlesin pistillinn var – eða e.t.v. aðeins fyrirsögnin: „Er meðaltal fyrstu skuldaniðurfellingar 261 þúsund?“ Fyrirsögnin er nóg. Hún felur í sér áætlað meðaltal. Þeir sem reyna að meta, skjóta á eða ímynda sér líklega fjárhæð fyrir sig – bindast akkerinu. Það keyrir niður væntingar í huga fólks. Í upphaflegri kynningu á aðgerðunum var nefnd hámarksfjárhæð á heimili: 4 milljónir. Sú tala er vitanlega algjörlega á hinum endanum og hafi hún orðið að akkeri í hugum fólks á sínum tíma þá hefur Kjarninn gert stjórnvöldum stóran greiða með því að koma fyrir nýju.

Þeir sem vinna við almannatengsl og spunameistarar ýmiskonar eru iðulega vel að sér í hugsanaskekkjum og skammhugsunum. Og nýta sér það.

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page