top of page

SEARCH BY TAGS: 

Er vatnið heilagt?

Á dögunum talaði ég á ráðstefnu Norðurorku sem haldin var í tilefni af 100 ára afmæli vatnsveitu á Akureyri. Þar voru á boðstólnum feyki fróðleg erindi um sögu vatnsveitunnar auðvitað, um vatnsbólin okkar, um gæði og verndun vatns, spurt var hvort Íslendingar sói vatni og fjallað um vatn frá sjónarhóli matvælaframleiðenda. Gaman var það.

Hvers konar gæði er vatn?

Hryggjarstykkið í minni pælingu var hins vegar vangavelta um hverskonar gæði eða verðmæti vatn er. Á ráðstefnunni bað ég áheyrendur að taka þátt í stuttri hugartilraun. Skoðið þessar myndir og hugleiðið hvaða gæði búa að baki þeim.

Þið megið líka huga að því hvernig þið mynduð flokka myndirnar.

Gæði í lífi okkar eru margskonar. Ég giska á að að flestir hafi flokkað saman farsímann, uppþvottavélina, sjónvarpið og jeppann sem efnisleg gæði, jafnvel tæknigæði. Trúlega hefur fólk flokkað saman parið í sólinni og vinina á bryggjunni - að baki búa hugmyndir um vináttu og ást - samskiptagæði. Veit ekki með hjólaskautamanninn en ég hafði í huga frelsi eða sjálfræði. Þá eru eftir lambalærið og drykkjarvatnið sem við flokkum með grundvallargæðum. Á þessu stigi getum líka við spurt okkur hvað skiptir mestu máli?

En flokkarnir eru nokkurn veginn svona:

  • Efnisleg gæði sem spretta af hlutum sem við framleiðum í því skyni að létta okkur lífið, gleðja eða skemmta - þarfir sem óþarfir.

  • Siðferðileg verðmæti sem verða til vegna samskipta okkar við aðra. Þau verða til á milli okkar og annarra. Þegar fólk er spurt hvað skiptir það mestu máli í lífinu þá nefnir það gjarna fyrirbæri sem eiga heima í þessum flokki: Frelsi, sjálfræði, hamingja, vinátta, ást o.s.frv.. Sumir vilja meina að byggja megi hugmyndina um sammannlegt siðferði á þessum verðmætum. Það er löng saga og hér er farið hratt yfir. Við getum í.þ.m. haldið þvið fram að þessi gæði geri kröfu um einhvers konar gagnkvæmni. Kannski er vináttan skýrasta dæmið. Vináttusamband gerir kröfu um gagnkvæma virðingu þeirra sem eiga í sambandinu. Rétturinn til vináttu byggir á þeirri skyldu að endurgjalda vináttu. Annað er meiningarlaust. Frelsi eins getur ekki verið á kostnað allra hinna og þar fram eftir götunum.

- En ef það er rétt að smíða megi hugmynd um sammannleg siðferðileg verðmæti á þessum grunni þá erum við jafnframt komin með sökkul undir mannréttindi: Rétturinn til lífs, til frelsis, sjálfræðis, til þroska.

  • Grunngæði, fæði, klæði og húsaskjól. Mér dettur í hug að það mætti líka kalla þau „öryggisgæði" þar sem þau verða til vegna fjarveru ógna eða í skjóli fyrir því sem myndi annars ógna lífi okkar: Veður, hungur, stríð, náttúruhamfarir og fátækt svo nokkuð sé til sögunnar nefnt. Friður væri þá öryggisgæði af þessum toga.

Sitthvað er sameiginlegt með siðferðilegu verðmætunum og öryggisgæðunum. Með svipuðum hætti og við berum sameiginlega ábyrgð á því að fyrirbærið frelsi gangi upp, þá berum við sameiginlega ábyrgð á því að fyrirbærið friður gangi upp. Og gildir ekki það sama um ýmsar auðlindir náttúrunnar, sem við getum ekki lifað án og ganga til þurðar ef við (mannkynið) göngum ekki sameiginlega varlega um þær?

Þannig er það með vatnið. Líkt og stríð eins verður ófriður annars, þá verður sóðaskapur eins að spilltu vatnsbóli annars. En það er fleira um vatnið sem gerir það e.t.v. enn líkara siðferðilegu verðmætunum en öryggisgæðunum.

Vatnið er einstakt (með andrúmsloftinu) að því leyti að það kemur ekkert í staðinn fyrir það. Við getum uppfyllt þörf okkar fyrir fæði, klæði og skjól gegn ýmsum ógnum á fleiri en einn hátt. Það skiptir ekki öllu máli þó þú eigir ekki hrísgrjón ef þú á mjöl. Það breytir ekki öllu þó þú eigir ekki fisk ef þú átt kjöt. Það þarf ekki að breyta öllu hvort húsaskjólið er úr timri, snjó eða steypu. En í staðinn fyrir vatn kemur ekkert. Vatn er undirstaða allrar matvælaframleiðslu. Og við þekkjum afleiðingar þess að hafa ekki aðgang að nothæfu drykkjarvatni. Sá sem ræður vatni ræður lífi.

Þá vaknar spurningin: Getur verið að af réttinum til lífs leiði rétturinn til hreins vatns? Getur verið að drykkjarhæft vatn sé - ekki kannski beinlínis siðferðileg verðmæti sem slíkt - en alveg klesst upp við siðferðileg verðmæti sem fyrirbæri? Kannski í sínum eigin flokki? Ættum við alltaf tala um fæði, klæði húsaskjól og vatn?

Ekki er að undra að rétturinn til vatns er viðfangsefni alþjóðalaga um mannréttindi. Einna skýrast mun þetta vera í samþykkt nefndar Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (United Nations Committee on Economic, Social and Cultural Rights):

„Réttindi manna til aðgangs að drykkjarvatni er undirstaða lífs og heilsu. Nœgjanlegt og öruggt drykkjarvatn er forsenda annarra mannréttinda. Rétturinn að drykkjarvatni þýðir að allir eiga kröfu á öruggu, nœgjanlegu, aðgengilegu vatni á viðráðanlegu verði sem nægi til daglegra þarfa einstaklings (til drykkjar, heimilishreinlœtis, matargerðar og líkamlegs hreinlœtis). Nœgilegt drykkjarvatn á að túlka á þann veg að mannlegri reisn verði haldið en ekki með þröngum hætti með tilvísun í rúmmálseiningar og tœkni, né heldur með því að meta vatn fyrst og fremst sem verslunarvöru. Viðhalda skal rétti manna til drykkjarvatns með sjálfbœrum aðferðum sem tryggi að menn haldi þessum réttindum í nútíð og framtíð.“ *

Í heiminum er staðan ójörfn. Þessum gæðum er misskipt eins svo mörgum öðrum. Milljarður manna hefur ekki aðgang að hreinu drykkjarvatni, nærri 20% jarðarbúa. Sum landsvæði þorna ákaft meðan önnur virðast á leið í kaf. Bretland og Mið Evrópa hafa fengið sinn skerf af flóðum meðan Mið-Austurlönd, Norður Afríka og Suður-Asía þorna. Landbúnaður tekur meira og meira til sín. Á Indlandi fer 75% af allri vökvun í landbúnaði fram með vatni sem dælt er upp. Öll vatnsnotkun kemur á endanum úr sömu uppsprettum og aðgangur að nothæfu vatni verður bara stærra og stærra viðfangsefni í heiminum.

Er vatn venjuleg markaðsvara?

Í fyrirlestrinum gerði ég einkavæðinug vatns og vatnsréttinda að umtalsefni. Pælingin er þá hvort draga megi sérstakar ályktanir um þau efni af þeirri staðreynd að vatn er alveg sérstakt. Ég hef í hyggju að reifa þetta í sérstakri færslu hér á blogginu en viðfangsefnið er stórmerkilegt. Látum að sinni duga þessar spurningar:

  • Hvernig á að stjórna notkun vatns þannig við sóum því ekki?

  • Hverjir á að fjármagna vatnsöflun sem er oft geysilega dýrt fyrirtæki?

  • Hvernig á að verðleggja eitthvað sem ekki er hægt að vera án?

Gagnrýnin hugsun og vatn Vinur minn sem var meðal áheyreynda spurði mig hvort ég gæti ekki eitthvað notað þessar pælingar í vinnunni við meistaraverkefnið mitt. Sannast sagna þá hafði ég það ekki í huga þegar ég setti saman innleggið fyrir ráðstefnuna. Fyrir utan æfinguna í yfirvegun og skriftum.

En spurningin kveikti hugsun. Það að tryggja hagsmuni almennings (og þ.m.t. aðgang að hreinu vatni) er eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna. Þurfum við ekki að greina skipulögðum og öguðum hætti hagsmuni almennings og þau gæði sem þeir byggja á? Takist það ekki vel er e.t.v. ekki nema von að stjórnmálamenn og við kjósendur misstígum okkur þegar að því kemur að tryggja þessa sömu hagsmuni?

- - - - - - - *Íslensk þýðing úr umsögn BSRB um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 81/1991, með síðari breytingum.

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page