top of page

SEARCH BY TAGS: 

Er kennivaldið góður kompás?

Í nóvember var ég leiðari á Heimspekikaffi á kaffihúsinu Bláu könnunni hér á Akureyri og lagði upp umræðuefni. Ég spurði eftirfarandi spurningar: Er kennivaldið góður kompás?

Hafði eftir á orð á því að blogga eitthvað um efnið. Er þá ekki rétt að binda endi á alltof langt blogghlé með slíkum pistli. Svo kemur Páll Skúlason við sögu og það þykir mér ekki verra.

- - -

Einfaldasta og skýrasta dæmið um kennivald er vald foreldra yfir börnum sínum. Framan af ævi sinni treysta börn foreldrum sínum í blindni og lúta þeirra vilja að mestu leyti. Þannig á það líka að vera – hlutverk foreldranna er að vernda börn sín og leiða til þroska þar til þau smám saman mótað sínar eigin skoðanir og taka eigin ákvarðanir. En það er líka vegna þessa valds sem foreldrar og fullorðið fólk geta verið svo hættulegar skepnur. Því miður kjósa sumir að misnota þetta vald fullorðinna gagnvart börnum, misnota traust þeirra og níðast á þeim. Svo vonlaust sem er að skilja það.

Leiðir til skoðanamyndunar – Skúlason og Peirce

Í grein sinni: „Er hægt að kenna gagnrýna hugsun?“ tilgreinir Páll Skúlason heimspekingur fjórar leiðir til skoðanamyndunar.* Hann styðst þar við greiningu bandaríska heimspekingsins Charles S. Peirce (1839-1914) **. Viðfangsefni Páls eru nokkur í greininni og m.a. þetta:

„Vandinn sem við stöndum frammi fyrir er þessi: Í vissum efnum myndum við okkur skoðun eftir leiðum gagnrýninnar hugsunar. Í öðrum efnum myndum við okkur skoðun án þess að skeyta um gagnrýna hugsun.“

Hvernig skyldi standa á þessu? Til að reyna átta sig víkur Páll að leiðnunum fjórum en þær eru þrjóskuleið, kennivaldsleið, fordómaleið (eða e.t.v. „leið fyrirfram dóma“) og loks leið gagnrýninnar hugsunar (sjá myndir).

Kennivaldsleiðin er skv. þessari greiningu fólgin í því að láta ríkið og stofnanir segja til um hvað sé fyrir bestu og innræta þær skoðanir þegnum samfélagsins. Páll segir þetta lang áhrifaríkustu leiðina sem fundinn hefur verið upp til að mynda skoðanir og festa þær í sessi. Ríkið, trúarstofnunin (Kirkjan) og Flokkurinn (einhver ráðandi) eru lykilaðilar þessarar leiðar í samfélagi þar sem hún væri alsráðandi. Ekki þarf að fjölyrða um kosti og galla þessarar leiðar, en hún getur ýtt undir samheldni í samfélaginu en megingallinn fólginn í mögulegum ofsóknum og kúgun gagnvart þeim sem ekki hafa skoðanir sem kennivaldinu eru þóknanlegar.

Hugmynd Peirce er að leið gagnrýninnar hugsunar (eða vísindalegrar hugsunar eins og hún heitir hjá honum) geri okkur kleyft að reisa skoðanir okkar á traustum grunni. Páll bendir hins vegar á að sérhver maður hljóti að nota allar þessar leiðir til að komast að niðurstöðum í veigamiklum málum og að leið gagnrýninnar hugsunar trompi hinar í raun ekki. Að hún sé ekki sjálfstæð með tilliti til hinna þriggja, að það sé engin leið að sigrast á þeim.

Róbert Haraldsson heimspekingur gagnrýnir að hluta til þessa greiningu Páls og bendir á fyrir Peirce vaki að svara spurningunni: Hvers vegna myndum við okkur yfir höfuð skoðanir? Svar Peirce er á þá leið að við viljum losna undan óþægindunum sem felast í því að efast – og að í því ljósi trompi hin vísindalega leið hinar óumdeilanlega. Með því að hún spyr um staðreyndir sem leiðir af rannsókn á veruleikanum og vill mynda skoðanir byggða á þeirri rannsókn. Öfugt við t.a.m. þrjóskuleiðina sem vill færa hugmyndina, tilfinninguna, kenndina sem býr innra með okkur upp á veruleikann og sveigja hann að skoðuninni en ekki öfugt. Róbert segir Pál horfa fram hjá þessu mikilvæga atriði í greiningu Peirce. ***

Páll segir hins vegar að beiting gagnrýninnar hugsunar færi okkur heim sanninn um að við munum aldrei geta haft algjörlega á hreinu endanlegar og fullnægjandi forsendur þess sem mestu máli skipti fyrir skilning okkar á veruleikanum. Og þess vegna sé pláss fyrir hinar leiðirnar þrjár, þrjósku-, kennivalds- og fordómaleiðina. Þeim megi þó aldrei beita nema með þá gagnrýnu í bakhöndinni. Að lokum getur Páll einnar mikilvægrar forsendu fyrir kennslu gagnrýninnar hugsunar: Að verðum að vilja hana.

Kahneman, kerfin tvö og gagnrýnisleysi

Það hefði líklega verið gagnlegt fyrir Pál að hafa á sínum tíma aðgang að rannsóknum sálfræðinnar á hugsanaskekkjum (e. cognitive biases) og svonefndum flýtileiðum hugsunar (e. heuristics) þar sem er einmitt ráð fyrir því gert að við höfum alls ekki alltaf stjórn á því hvernig við hugsum. Þar með hvað okkur finnst eða hvernig við tökum ákvarðanir – að við stjórnumst af tilfinningum og hvötum. Og það eigi að vera þannig.

Sálfræðingarnir Daniel Kahneman og Amos Tversky rannsökuðu hugsanaskekkjur og flýtileiðir árum saman og leituðu leiða til að skilja órökvísi okkar. Í bók sinni Thinking fast and slow skiptir Kahneman hugsun okkar í tvö kerfi eða heldur því fram að hún fari fram í því sem hann kallar kerfi I og kerfi II. Hér er ekki ástæða til að fara í djúpt í þetta en örstutt samt (verður betur gert í sérstökum pistli).

Í kerfi I eru fyrirbrigði eins og:

- geta okkar til að greina að einn hlutur liggur nær en annar,

- lesa svipbrigði í andliti,

- reikna 2+2,

- ljúka setningum eins og „Í sól og .....“.

- nema ógn í raddbrigðum o.fl.

Í kerfi II eru fyrirbrigði sem krefjast athygli okkar;

- einbeita sér að rödd ákveðinnar manneskju í fjölmenni,

- telja þau skipti sem bókstafurinn a birtist á blaðsíðu,

- leggja bíl í þröngt stæði,

- viðhalda meiri gönguhraða en manni er eiginlegt o.fl.

Ein grundvallarhugmyndin er sú að það sé okkur alls ekki eðlislægt að hugsa alltaf gagnrýnið, af yfirvegum og rökvísi um alla hluti. Við myndum einfaldlega ekki virka sem skyldi ef svo væri.

Villurnar sem við gerum felast aftur á móti í því að við beitum kerfi I á viðfangsefni þar sem kerfi II ætti að hafa alla stjórn. Eins og t.d. þegar við metum áhættu eða líkur á að ákvarðanir fari á verri veg eða myndum okkur skoðun á pólitískum andstæðingi. Tilfelli þar sem við ættum sannarlega að hafa gagnrýna hugsun í bakhöndinni. Eins og hjá Páli.

Kennivald, skoðanir og ákvarðanir

Víkum þá að kennivaldinu sem slíku. Venjulega eru tilgreindar nokkrar tegundir þess; áður nefnt foreldravald, kennivald stofnana (eins og hjá Páli og Peirce), kennivald í pólitík þegar fólk bindur trúss sitt við flokkinn eða hugsjónahópinn sem það tilheyrir og loks kennivald sérfræðinga á ýmsum sviðum.

Megin spurningin mín á Heimspekikaffinu var: Hvenær er rétt að styðjast við kennivald? Sem dæmi um kennivald sem við fylgjum yfirleitt án mikilla efasemda eru tillögur lækna um læknismeðferð – fáum e.t.v. annað álit en við erum engu að síður að fylgja kennivaldi læknanna: Teljum að við höfum ekki forsendur sjálf til að skipuleggja meðferð. Við gerum skoðun læknisins að okkar og tökum ákvörðun í samræmi við hana. Önnur dæmi eru fyrirskipanir slökkviliðsmanns í brennandi húsi eða sjúkraflutningamanna í bráðaaðstæðum eða ráð lögfræðings um hvernig skuli brugðist við ákæru um lögbrot. Við efumst lítið um sérfræðiþekkingu þessara aðila. Kennivald sérfræðinga getur líka birst í því að álit þeirra á viðfangsefnum og verkefnum í samfélaginu vega þyngra en álit annarra – vegna þess sérþekkingar þeirra á viðkomandi sviði. Það er fólkið sem mætir í fjölmiðlaviðtölin.

Vafadæmi og ekki - hvað finnst þér?

a) Lögreglan er sérfróð um vopnaburð og er því færust um að taka ákvarðanir um eigin þörf fyrir vopn og verjur. Þess vegna á fólk út í bæ ekki að reyna að hafa skoðun á þörfinni fyrir vopnaburðinn. Almenningur hefur ekki vit á slíku og hefur þess vegna ekki aðkomu að málinu. Þarna er vísað til þess að vegna yfirburðaþekkingar lögreglunnar eigi aðrir sem ekki hafa vitið að þegja. Líkt og ég færi ólæknismenntaður að gefa skipanir um læknismeðferðir nágranna minna. En er það svo? Hefur þegn í samfélagi ekkert um vopnaburð lögreglunnar sem getur á endanum beinst gegn honum sjálfum – ekkert um þá vígvæðingu að segja?

b) Getur trú á samfélagsskipulag orðið að kennivaldi? Trú á markaðinn og svonefndar markaðslausnir? Eða þvert á móti að einkafyrirtæki á markaði megi alls ekki koma nálægt tilteknum verkefnum – eins og heilbrigðisþjónustu? Lítið dæmi: Í umræðum á Alþingi um eftirlit með þróun verðlags í kjölfar skatta- og vörugjaldabreytinga um síðustu áramót var Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, spurð um hvort hún hygðist beita sér fyrir eftirliti með því að breytingar bitnuðu ekki með ósanngjörnum hætti á neytendum.

Svar hennar var á þessa leið: „Það er mín grundvallarafstaða að ekki sé þörf á opinberu eftirliti þegar kemur að þessum þætti mála. Ég er reyndar einnig á þeirri skoðun að íslenskir neytendur séu vel upplýstir og fylgist vel með.“ Að baki býr viðhorfið, sem margir vildu kalla grundvallar kennisetningu hins frjálsa markaðar: Markaðurinn leysir þetta. Gengur sú trú upp í veruleikanum?

c) Hvað um að byggja skoðun sína á öðru fólki á kennivaldi? Er skynsamlegt að reisa skoðun sína á samkynhneigðum eða fólki sem hefur aðra kynhneigð en við sjálf á kennisetningum trúarbragða? Er skynsamlegt að líta homma þeim augum að þeir muni fara til helvítis af því að trúarbrögðin sem maður aðhyllist túlka Biblíuna þannig? Er það góð ástæða til að vera á móti samkynhneigðum að páfinn er það? Standast slíkar skoðanir kröfur gagnrýninnar hugsunar? Þurfum við yfirhöfuð að hafa skoðun á samkynhneigð?

En hvenær er rétt að láta kennivald ráða skoðunum sínum og ákvörðunum? Svarið er ekki alveg einfalt. En getum við sagt: Sem sjaldnast?

Getum við ekki fullyrt að maður skuli gæta sín sérstaklega á kennivaldi? Hvers vegna? Jú í því felst að við treystum á dómgreind eða þekkingu annarra – eða jafnvel það sem verra er: Trúum blint á kennisetningar og kenningakerfi annarra. Í verstu tilfellum eins og í alræðisríki eða bókstafstrúarsamfélagi þar sem þjónar þess sverja því hollustu blint og gagnrýnislaust.

Heimildir:

* Páll Skúlason: Pælingar, safn erinda og greina, Reykjavík 1987, bls. 67-92.

** Peirce, Charles S.: „The Fixation of Belief“ í Selected Writings, 1958

*** Róbert Haraldsson: „Gagnrýnin hugsun og veruleiki“ í Ádrepur, Reykvík 2010

RECENT POSTS: 

© 2014 Þórgnýr Dýrfjörð. Byggt á grunni frá Wix.com

bottom of page